Sykursýki hjá öldruðum á hjúkrunarheimilum Rannsóknir á hinum Norðurlöndunum sýna að gamalt fólk með sykursýki sem býr á hjúkrunarheimilum er oft að fá of mikla eða of litla meðferð, og oft þekkir starfsfólkið ekki muninn á mismunandi tegundum sykursýki. Því miður virðist starfsfólk á öldrunarstofnunum oft vita of lítið um sykursýki almennt. Þetta gildir ekki aðeins um ófaglærða starfsfólkið á gólfinu heldur einnig um heilbrigðisfagfólkið. Áberandi er að fólk virðist ekki hafa vanist því að fólk með Tegund 1 sykursýki lifir nútildags lengur en áður, og það fólk er farið að koma inn á öldrunarstofnanir. Margir virðast sjálfkrafa, jafnvel læknar og hjúkrunarfræðingar, gera ráð fyrir að gamalt fólk með sykursýki sé allt með Tegund 2. Jafnvel sáust dæmi um að þetta væri ranglega skráð í sjúkraskýrslur viðkomandi. Algeng vandamál voru bæði of mikil og of lítil lyfjagjöf. Hjá gömlu fólki minnkar oft matarlystin, en þá er samt oft haldið áfram að gefa sama skammt blóðsykurlækkandi lyfja/insúlíns. Þá koma blóðsykurföll sem valda aukinni hættu á að fólk detti og meiðist. Aðrir fá of lítið af lyfjum og eru stöðugt með of háan blóðsykur og búa þá við vanlíðan, kláða og ógleði. Sáust tilfelli þar sem starfsfólkið
hélt að viðkomandi væri með stöðuga magasýkingu þegar raunin var sú að ógleðin stafaði af allt of háum blóðsykri. Því eldri sem við verðum því meiri áherslu ætti að leggja á skammtímaáhrif meðferðar. Aðalatriðið ætti að vera að tryggja að sjúklingnum líði sem best hverju sinni. Til þess er nauðsynlegt að halda blóðsykrinum sem stöðugustum. Ekki er vitað til þess að þetta hafi verið sérstaklega athugað á Íslandi, en engin sérstök ástæða til að ætla að þessu sé öðruvísi farið hér en t.d. í Svíþjóð. Þýtt og aðlagað úr sænsku, Fríða Bragadóttir
Stuðningsnet sjúklingafélaganna Á aðalfundi Stuðningsnetsins, sem haldinn var í tvennu lagi þann 10.september og 8.október s.l., var tekin sú ákvörðun að leggja félagið niður. Sá hluti starfseminnar sem snýr að stuðningi við félagsmenn mun flytjast til aðildarfélaganna sjálfra, en hinn hlutinn, sem snýr að fræðslu til þeirra sem veita þann stuðning, mun færast á hendur Öryrkjabandalagsins og munu félögin fá sendar tilkynningar frá bandalaginu um frekari útfærslu á því þegar staðan í samfélaginu breytist og hægt verður að kalla fólk saman á ný. f.h. stjórnar Stuðningsnetsins Fríða Bragadóttir, formaður
46
J A F N VÆ G I N Ó V E M B E R 2020