lífrænt
Mismunandi pizzur fyrir mismunandi smekk! Föstudagar eru pizzudagar á mörgum heimilum og tilvalið tækifæri fyrir fjölskylduna að eiga góða stund saman. Margir mikla fyrir sér að útbúa sitt eigið pizzudeig en það er í raun eitt af því einfaldasta sem hægt er að gera í eldhúsinu. Í venjulegt gómsætt pizzudeig þarf einungis 5 hráefni og þú færð margfalt betra deig heldur en það sem þú færð út í búð. Það er því tilvalið að henda saman deigi og leyfa því að hefast á meðan fjölskyldan undirbýr saman það sem á að fara ofan á hana. Hver og einn getur svo raðað á sína pizzu því sem hann elskar. Íris Kjartans er matgæðingur og bloggari.
32
Á mínu heimili eru alltaf gerðir tveir mismunandi pizzubotnar svo allir fái það sem þeir elska, hinn klassíska heilhveiti-pizzubotn og svo spínat-pizzubotn. Hvorn tveggja er einfalt að gera og tekur enga stund. Ofan á þessa botna er svo hægt að setja allt milli himins og jarðar. Gott er að byrja eldamennskuna á að gera heilhveiti-pizzubotninn og leyfa honum svo að hefast á meðan þú græjar restina.
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að þessum tveim botnum ásamt mildri pizzusósu, sem er eins og þær sem maður fær á Ítalíu. Það sem er svo frábært við að útbúa þetta tvennt sjálfur, sósu og botn, er að við sleppum við alls kyns efni sem annars eru sett út í bæði sósur og botna sem fást út í búð til þess að láta þá endast lengi og líta vel út. Við vitum nákvæmlega hvað er í því sem við útbúum sjálf og með því að nota hágæða lífræn hráefni erum við að næra kroppinn okkar eins vel og við mögulega getum. Ég prufa oft að bæta einhverju nýju við á mínar pizzur en það sem er alltaf á þeim í grunninn er sósan hér til hliðar; rifinn ostur, rjómaostur, mjúkar döðlur frá Himneskri Hollustu, kirsuberjatómatar og svo ruccola, sem ég set á eftir að pizzan hefur verið bökuð. Svo finnst mér guðdómlegt að setja muldar wasabihnetur, pekan-hnetur og fleira. Þetta er svo toppað með hvítlauksolíunni sem er uppskrift að hér til hliðar.