Afla vel og koma heil heim
Þ
egar ég fór ungur maður til sjós á togara heima á Dalvík var umhverfi sjómannsins allt annað en það er í dag. Maður ólst upp við það að sjómennskan væri hættulegt starf sem á stundum gæfi vel í aðra hönd, stéttin væri hörð í horn að taka en stæði þétt saman þegar á reyndi.
Mannlífið á Dalvík, líkt og í flestum sjávarplássum landsins, rís og hnígur í takt við sjólagið í sjávarútvegi landsmanna. Í uppvextinum ólst ég upp við leik og starf í fjörunni, á bryggjunum, á síldarplönum svo ég tali nú ekki um Netagerð Dalvíkur hf. Og svo fór maður fyrst á sjóinn á sumrin í skólafríum, á togara og datt þá inn í þetta samfélag ,,jaxlanna“ sem svo var oft kallað, sérstaklega af þeim sem ekki þekktu til. Þarna kynntist maður margvíslegum manngerðum, allt frá óhörðnuðum unglingum til saltstorkinna sögufrægra einstaklinga sem voru komnir nokkuð við aldur. Í þá daga var stálskrokkur skipsins lokuð veröld, án mikilla tenginga í land nema í gegnum gömlu „Gufuna”. Einstaka símtal gat þó komið til, ef mikið lá við, í gegnum radíóin sem allir gátu hlýtt á ef vilji manna stóð til þess. Við þekkjum öll sögurnar af ungu mönnunum sem fengu símtal eða skeyti um borð um fæðingu barns. Fram kom lítið annað en kyn barnsins og kannski einhver orð um að „barni og móður heilsast vel“. Tóku þó allir þátt í gleðinni yfir þessum tímamótum með hinum nýbakaða föður. Þetta er allt annað í dag; fjarskipti greiðari, upplýsingar og tenging við mannlíf með betri hætti og aðbúnaður. Sumum þykir jafnvel nóg um allar síma og fjarskiptatengingarnar. Sjálfum þykir mér gott að leggja farsímann frá mér og verður mér stundum hugsað til daganna þegar ég var til sjós og sá ekki annað fyrir mér en að það yrði lífsstarf mitt. Mikilvægustu framfarirnar fyrir störf sjómanna eru sá árangur sem hefur náðst í slysavörnum til sjós. Enginn sjómaður fórst á síðasta ári við strendur landsins sem er sjötta árið sem slíkt gerist og þriðja árið í röð. Þessi gleðitíðindi koma fram í ársskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa og ber að þakka af heilum hug. Þegar haft er í huga að sá vetur sem nú er að baki hefur reynst sjómönnum afar erfiður, miklar brælur og sjólag oft með versta móti þá er maður enn þakklátari öllum þeim sem lagt hafa því liðsinni sitt að forða slysum til sjós. Skip og búnaður batna ár frá ári, þekkingu og færni sjómanna fleygir fram en glíma þeirra við náttúruöflin lýtur ætíð sömu lögmálum. Aðbúnaður, hugarfar og slysavarnir hafa gert okkur kleift að ná þeim árangri sem raun ber vitni og fyrir það ber að þakka. Markmiðið áhafnar er alltaf það sama þegar lagt er úr höfn, afla vel og koma heil heim. Eins og var í sjóferðabænum langfeðra okkar, þar sem heitið var á almættið fyrir huldum öflum lofts og lagar svo skipið verði leitt farsællega á djúpið. Ég óska sjómönnum, fjölskyldum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegs sjómannadags. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
4
SJÁVARAFL JÚNÍ 2020