Súgandi
Frá krýningu Georgs VI til Súgandafjarðar Viðburðarík ævi prestsfrúarinnar á Stað Það verður að teljast harla sérstakt til þess að hugsa að ung íslensk kona hafi árið 1937 verið viðstödd krýningu Georgs VI Bretakonungs í hinni miklu heimsborg, Lundúnum. Enn kostuglegra er að hugsa til þess að fimm árum síðar hafi þessi sama kona vera orðin prestsfrú á Stað í Súgandafirði þar sem hún ornaði sér við gamla Skandia eldavél þegar vindurinn hélt sína leið í gegnum frumstæð húsakynnin. Konan sem um ræðir hét Aðalheiður Snorradóttir og maður hennar var séra Jóhannes Pálmason. Prestshjónin á Stað. Jóhannes var þar prestur í þrjátíu ár og á þeim árum eignuðust þau fimm börn. Árið 1972 fluttust hjónin í Reykholtsprestakall og þar með lauk viðburðaríkum tíma á Súgandafirði. Fjölbreytileiki, gleði, áræðni, dugnaður og þor má segja að hafi fylgt Aðalheiði þau 102 ár sem hún lifði. Margbreytileiki, meðbyr, mótlæti og hugrekki gerðu hana að ákaflega nægjusamri, hæverskri og kærleiksríkri manneskju. Af lýsingum hennar sjálfrar að dæma sem og minningarorðum vina og ættingja virtist Aðalheiður hafa séð skoplegu hliðar þess er á daga hennar dreif. Nú eru rétt rúm fjögur ár liðin síðan Aðalheiður Snorradóttir kvaddi þessa jarðvist og því vel við hæfi að beina sjónum að áhugaverðu lífshlaupi hennar og gera sögu hennar skil.
Aðalheiður í garðyrkjustörfum á Thamesbakka með börnunum sem hún gætti.
Tvær heimsstyrjaldir, heimsfaraldur, hrun og hamingja Hver var þessi kona? Hvaðan kom hún? Þegar skrifað er um áhugaverðar persónur er hætt við að málæði (eða skrifæði) grípi þann er ritar því svo margt er það sem verður að koma fram. Þó ætti blaðamaðurinn, sem þetta skrifar, að vita að nauðsynlegt er að byrja á byrjuninni. Annað kann að valda ruglingi. Við byrjum á því sögulega ári 1914. Árinu sem heimurinn breyttist en þá hófst fyrri heimsstyrjöldin. Heimsstyrjöldin hafði geisað í þrjá mánuði og degi betur þegar hjónum nokkrum í Vestmannaeyjum fæddist dóttir. Hús hjónanna Snorra Þórðarsonar og Þorgerðar Jónsdóttur nefndist Steinn (nú Miðstræti 15) og þar bjuggu þau ásamt rúmlega ársgamalli dóttur, 16
Þuríði, þegar hin bjarteyga Aðalheiður kom í heiminn. Ævi þessarar ungu snótar var ekki það sem kallast mætti auðveld, í það minnsta var ekki allt gefið. Síður en svo. Hún lifði tvær heimsstyrjaldir, heimsfaraldur, hrun og upplifði mikinn missi. Í skammdeginu þann 16. desember árið 1924, þegar flestir Eyjamenn litu björtum augum til jólahátíðarinnar; hátíðar ljóss og friðar, barst fjölskyldunni í Steini sú harmafregn að bátur fjölskylduföðurins hefði farist og með honum átta menn. Þeirra á meðal Snorri Þórðarson og bróðir hans Guðmundur. Ekkjan, Þorgerður, var þá 44 ára gömul, og börnin orðin þrjú: Þuríður 11 ára, Aðalheiður 10 ára og Rútur, 8 ára. Erfið hafa þau jól eflaust verið fjölskyldunni sem og fjölskyldum annarra skipverja.