Á vakt fyrir Ísland 1tbl 2020

Page 36

Neyðarlína - neyðarnúmer Hugmynd mín var að gera stutta og snarpa grein um aðdraganda að stofnun Neyðarlínunnar byggða á samtali við Eirík Þorbjörnsson fyrsta framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar og Hrólf Jónsson slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Reykjavíkur, síðar höfuðborgarsvæðisins. Fljótlega kom í ljós að þessi saga er miklu viðameiri en svo að henni verði gerð grein í stuttri frásögn. Umfjöllunin er einnig byggð á gögnum sem eru aðgengileg á netinu eins og blaðagreinar og 126. skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Neyðarlínunnar hf. sem lögð var fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996, reglugerð um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar frá 1996 og áfangaskýrslu nefndar dómsmálaráðherra um samræmda neyðarsímsvörun. Ég hef einnig átt samtöl við einstaklinga sem voru sitt hvoru megin „víglínunnar“.

Fyrirmyndin að samræmdu neyðarsímanúmeri er fengin frá Alabama í Bandaríkjunum. Þar kom númerið 9-1-1 til sögunnar árið 1968 og hlaut síðan skjóta útbreiðslu í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Fyrst var mælt með númerinu 112 sem samræmdu neyðarnúmeri af Samtökum póst- og fjarskiptastjórna í Evrópu árið 1972. Númerið var síðan gert að samevrópsku neyðarnúmeri í aðildarlöndum Evrópusambandsins með ákvörðun ráðs sambandsins árið 1991. EES-samningurinn, sem samið var um um svipað leyti, fól í sér skuldbindingu fyrir Ísland og önnur EFTA/EES-ríki til að taka 112 upp sem neyðarnúmer til samræmis við aðildarríki ESB. Á Íslandi var það gert með lögum um samræmda neyðarsímsvörun árið 1995.

Nokkrar ástæður fyrir því að númerið 112 var valið sem neyðarnúmer

Lengd símanúmersins er aðeins þrjár tölur. Ekki er hentugt að hafa neyðarnúmer of langt eða of flókið. Æskilegt er að tölurnar þrjár séu ekki allar þær sömu. Meiri hætta er á því að óvart séu valdar þrjár eins tölur heldur en þrjár tölur þar sem ein er öðruvísi, til dæmis ef ung börn komast í síma. Tölurnar 1-1-2 eru þess vegna hentugri en t.d. 1-1-1. Númerið var valið með hliðsjón af símum með snúningsskífu. Á þannig símum þurfti að snúa skífunni styttra til að velja lág númer, heldur en há númer. Mun fljótlegra var að hringja í númerið 112 heldur en til dæmis 999 á þess háttar símum. Samkvæmt Wikipediu er neyðarnúmerið 112 notað í 81 landi. Á Íslandi kom hugmynd að sameiginlegu neyðarnúmeri fyrst fram í júlí árið 1986 þegar Katrín Fjeldsted læknir og borgarfulltrúi lagði fram formlega tillögu í borgarráði Reykjavíkur um sameiginlegt neyðarnúmer fyrir viðbragðsaðila í Reykjavík.

36

Á vakt fyrir Ísland

Katrín hafði búið í Bretlandi og kynnst þar kostum þess að hafa sameiginlegt neyðarnúmer fyrir viðbragðsaðila. Á Bretlandseyjum var neyðarnúmerið 999 í notkun. Katrín nefndi það sem mögulegan kost, auk þess sem 000 kæmi alveg til greina. „Auðvitað er ekki ódýrt að koma upp stjórnborði fyrir slíka þjónustu, auk þess sem athuga þarf hvar best væri að staðsetja slíka stjórnstöð, en mikil hagræðing yrði af þjónustu sem þessari og hún yrði örugglega fljót að borga sig,“ sagði Katrín sem fannst einnig eðlilegast að lögregla og slökkvilið bæru ábyrgð á að veita neyðarþjónustu. Málið var sent til umsagnar hlutaðeigandi aðila, almannavarna, borgarlæknis, Pósts og síma, slökkviliðs og lögreglu. Fyrirspurn var gerð um tækjabúnað hjá Slökkviliði Reykjavíkur til símsvörunar árið 1986. Símstöð slökkviliðsins var gömul og úrelt og allar símalínur fóru gegnum hana nema tvær. Ef hún hefði bilað var eingöngu hægt að svara um tvær símalínur. Eins fóru allar símalínur um miðbæjarstöð Pósts og síma. Svo illa vildi til að tæknibúnaður í henni bilaði oft á árunum 93–94. Á meðan slík bilun varði var lögregla og slökkvilið símasambandslaust. Brýn nauðsyn var að endurnýja búnaðinn. Því var hins vegar stöðugt slegið á frest vegna umræðu um sameiginlegt neyðarnúmer. Það ríkti því mikið ófremdarástand. Upptökubúnaður var einnig úreltur. Um þetta leyti lágu fyrir tillögur um að taka upp sameiginlegt neyðarnúmer fyrir svæðisnúmer 91 með aðsetur í húsnæði slökkviliðsins. Þar var gert ráð fyrir nýjum tækjabúnaði og lá fyrir samþykkt útboðslýsing vegna væntanlegra kaupa hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar. Af þessum hugmyndum varð aldrei, aðallega vegna þess að ekki var ljóst hver færi með forræði í þessu máli. Lítil hreyfing virðist vera í sextán mánuði. Í nóvember 1987 ítrekaði Katrín ósk sína í Borgarráði. Eftir það bárust fljótlega jákvæð svör frá umsagnaraðilum. Helstu mótbárur voru þær að svæðisnúmer 99 stæði í vegi fyrir því að hægt væri að gera 999 að neyðarnúmeri og endurnýja þyrfti skiptiborð lögreglustöðvarinnar áður en neyðarsími gæti orðið að veruleika.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.