Störfin í fiskeldinu – fjölbreytt og eftirsótt Lítil frétt í fjölmiðlum á dögunum varpaði athyglisverðu ljósi á þá fjölþættu atvinnusköpun sem á sér stað á degi hverjum vegna uppbyggingu laxeldis. Í fréttinni var frá því greint að hafin væri bygging umbúðaverksmiðju á Djúpavogi. Fjárfestingin næmi um 1,5 milljarði króna og myndi fjölga störfum í byggðalaginu. Umbúðirnar verða notaðar undir laxaframleiðslu sem fyrir er á staðnum og er undirstöðugrein þessa litla en vaxandi byggðalags. Þetta er enn eitt dæmið um hin jákvæðu áhrif sem við höfum kynnst á Vestfjörðum og Austfjörðum vegna laxeldis. Það hefur vaxið verulega á undanförnum árum og er nú orðið markverður hluti vöruútflutningsins og mikilvægur þáttur í þjóðarbúskapnum og atvinnusköpun. Ekki síst á landsbyggðinni.
10
SJÁVARAFL JÚNÍ 2021
Þróunin er bara rétt að byrja Núna er fiskeldi sem óðast að slíta barnsskónum. Við höfum séð störfin verða til, byggðirnar eflast sem njóta góðs af uppbyggingunni og þar sem áður var hnignun eða varnarbarátta er núna vöxtur, fjólksfjölgun og bjartsýni ríkjandi. Það hlýtur að teljast afar jákvætt að störf sem verða til eru ótrúlega fjölbreytt og kalla á fjölþætta reynslu, þekkingu og sérhæfingu. Enda hefur reynslan sýnt að karlar jafnt og konur sækjast eftir þessum störfum. Ungt fólk sest að í byggðum þar sem meðalaldurinn var áður hærri að jafnaði, en á landinu í heild. Aukin framleiðsla eldisfyrirtækja skapar forsendur fyrir nýrri starfsemi, eins og dæmið af kassaverksmiðjunni á Djúpavogi er gott dæmi um. Óteljandi störf hafa þegar orðið til í margvíslegri þjónustu. Með meira framleiðslumagni mun sú þróun halda áfram. Fóðurframleiðsla flyst inn í landið, en fóðrið hefur hingað til að mestu verið innflutt. Aukin framleiðsla skapar einnig möguleika á frekari úrvinnslu á afurðum, þar sem beitt verður tækni sem íslensk hátæknifyrirtæki hafa þróað. Fyrirtæki á borð við Marel, Skaginn 3X, Valka og fleiri munu koma sterk inn. Á komandi árum munum við því sjá enn frekari og fjölbreyttari atvinnusköpun.