Ávarp forseta SHÍ
Rebekka Karlsdóttir
Student Council's President Address
Hagsmunabarátta allra stúdenta The fight for all students’ equal rights
Mynd / Photo
Stúdentaráð Háskóla Íslands
Mér verður oft hugsað til þess þegar samnemandi minn tjáði mér að honum þætti stúdentahreyfingin vera að búa til storm í vatnsglasi vegna þess að við værum stöðugt að berjast fyrir breytingum sem vörðuðu fáa stúdenta. Þessu er ég afar ósammála, þar sem hlutverk okkar er að berjast fyrir réttindum allra þeirra sem á því þurfa að halda. Hagsmunabaráttan verður að vera allra stúdenta, ekki bara meirihlutans. Í gegnum lífið sinnum við ýmsum hlutverkum, tilheyrum mismunandi hópum samfélagsins eftir þessum hlutverkum og höfum ólíkra hagsmuna að gæta eftir því hvar við erum stödd á okkar vegferð. Þegar við tökum þá stóru ákvörðun um að hefja háskólanám skipum við okkur í hóp stúdenta og sem slíkir höfum við sameiginlegra hagsmuna að gæta í ýmsum málum. Það er þó ekki þar með sagt að allir stúdentar séu nákvæmlega eins. Í dag eru um fjórtán þúsund nemendur sem stunda nám við Háskóla Íslands og eins og gefur að skilja hafa ekki allir þessir 14 þúsund stúdentar sama bakgrunn, sömu þarfir og sýn. Rödd stúdenta er sterk þegar við tökum höndum saman, en það þýðir ekki að það eigi að vera aðeins ein rödd stúdenta. Til þess að hagsmunabarátta stúdenta geti staðið undir nafni verður hún að gera ráð fyrir fjölbreytileikanum í stúdentahópnum og skipta hagsmunasamtök eins og Q–félag hinsegin stúdenta þar miklu máli. Í Háskóla Íslands búum við að ríkri hefð fyrir öflugri hagsmunabaráttu stúdenta, en Stúdentaráð Háskóla Íslands var komið á laggirnar árið 1920. Hlutverk ráðsins, eins og nafnið gefur til kynna, er að gæta sameiginlegra hagsmuna stúdenta skólans
og á þeim rúmlega hundrað árum sem Stúdentaráð hefur starfað hafa margir mikilvægir sigrar í þágu stúdenta unnist með samtakamætti stúdenta. Það að margir sigrar hafi unnist þýðir þó ekki að mikilvægi hagsmunabaráttunnar sé eitthvað minna í dag, heldur hafa baráttumálin breyst og þróast í takt við þarfir og áherslur stúdenta hverju sinni. Baráttumál Stúdentaráðs í dag snúa meðal annars að þróun fjölbreyttra kennsluaðferða og auknum sveigjanleika í námsmati, en líka að öruggri fjármögnun háskólans, sanngjörnum kjörum á vinnumarkaði og lánasjóðskerfi sem sinnir hlutverki sínu sem jöfnunarsjóður. Þessi upptalning er alls ekki tæmandi en það sem þau snúast öll um í grunninn er baráttan fyrir jöfnu aðgengi að námi, að Háskóli Íslands sé aðgengilegur fyrir öll þau sem vilja stunda hér nám. Háskólinn er ekki aðgengilegur öllum ef það er ekki gert ráð fyrir þörfum allra stúdenta innan veggja hans; ef kennslustofan er ekki aðgengileg öllum og ef það er ekki salernisaðstaða fyrir alla stúdenta. Baráttan stoppar ekki við veggi háskólans heldur teygir hún anga sína á alla þá staði sem varða stúdenta sem manneskjur. Háskólanám er ekki aðgengilegt öllum ef lánasjóðurinn styður ekki við þau sem þurfa á aðstoð hans að halda, ef stúdentar hafa ekki aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði og ef undirfjármagnaður háskóli getur ekki sinnt öllum nemendunum. Háskóli Íslands á að vera aðgengilegur öllum þeim sem vilja stunda hér nám og stúdentar verða að láta í sér heyra þar til því marki er náð. Rödd stúdenta er ekki sameinuð nema þau sem eru í forsvari sinni
11