Sjávarútvegur tilbúinn að takast á við krefjandi framtíð Þ
að er oft gaman en misgáfulegt að spá í framtíðina. Enda verður ekki spáð um annað en það sem ókomið er, og reyna við þá iðju að byggja á því sem liðið er; reynslunni. Það er fæstum gefið að gera það af einhverju viti og svo er einnig um mig. Og nú þegar þetta sérstaka ár er að líða undir lok, er kannski réttara að fara heldur varlegar en endranær í spádóma. Ég spái því þó, án ábyrgðar, að næsta ár verði betra en árið 2020. En hvað er framundan í sjávarútvegi á ári komanda? Íslenskur sjávarútvegur hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum árum. Ekki bara í veiðum og vinnslu, heldur ekki síður í allri umgjörð. Tímarnir hafa einfaldlega breyst og mennirnir með. Þó verður að segjast eins og er að íslenskur sjávarútvegur hefur tekið stærri skref og áhrifaríkari en sjávarútvegur víða um heim. Sjávarútvegur er ein grundvallarstoða í íslensku efnahagslífi og það verður að reyna að gera, með sjálfbærri nýtingu, eins mikið úr auðlindinni og framast er unnt. Það hefur tekist bærilega. Sú vegferð hefst með kvótakerfinu og síðar framsali veiðiheimilda. Fyrirtækin hafa verið að styrkjast og stækka og það hefur skilað því að íslenskur sjávarútvegur er einn sá hagkvæmasti í heimi. Og umfram sjávarútveg í mörgum löndum greiðir hann sérstakt auðlindagjald, en þiggur ekki styrki eða stuðning frá ríkinu. Íslenskur sjávarútvegur er smár í alþjóðlegu samhengi og hefur lítið að segja um verð á alþjóðlegum markaði. Því er einfaldlega ekki hægt að velta hækkun á kostnaði á söluverðið. Það verður að leita annarra leiða. Nýjasta tækni, fjárfesting og nýsköpun er leiðin fram á við. Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa numið að meðaltali 22 milljörðum króna á ári, undanfarin fimm ár. Það er vísbending um hvers má vænta í framtíðinni. Ný skip hafa verið að koma til landsins, búin nýjustu tækni og oftast eru þau útbúin
Höfundur er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í
sjávarútvegi.
með lausnum sem íslensk fyrirtæki hafa hannað í samstarfi við útgerðir. Þá er einnig vert að líta til fiskvinnsluhúsa sem hafa verið reist á Íslandi á undanförnum árum, þau fullkomnustu í heimi. Þar má finna fjölmargar lausnir sem hannaðar hafa verið og smíðaðar á Íslandi og mörg dæmi um gifturíkt samstarf sjávarútvegs og tæknifyrirtækja. Umhverfismál tengjast öllu því sem gert er í sjávarútvegi og á dögunum var kynnt stefna íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í samfélagsábyrgð. Þar hefur sjávarútvegurinn náð góðum árangri, ekki síst vegna þess hvernig skipulag er á veiðum og vinnslu á Íslandi. Það má kalla
28
íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið eitt stærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála, þótt ekki hafi verið sérstaklega lagt upp með það á sínum tíma. Til framtíðar litið held ég að íslenskur sjávarútvegur muni að verulegu leyti treysta stöðu sína með því að halda áfram að fjárfesta í nýjustu tækni og lausnum. Einnig að hann hugi enn betur að því hvernig hægt er að tryggja framboð af hágæða hráefni á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði, með eins litlum áhrifum á umhverfið og mögulegt er. Sú er krafa nútímans og hún mun þyngjast, en sjávarútvegurinn er tilbúinn að takast á við krefjandi framtíð.